logo

Jˇn ┴rnason ß Sy­ri-┴

Jón Árnason 
 
1928 - 2004 
 
Jón Árnason, eða Nonni á Syðri-Á eins og hann var kallaður - lék með South River Band frá stofnun hljómsveitarinnar árið 2000.
 
 
Jón Árnason fæddist á Syðri-Á í Ólafsfirði 27. júní 1928. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri að kvöldi 10. mars 2004. Foreldrar hans voru Árni Jónsson útvegsbóndi á Syðri-Á, f. þar 15. febrúar 1888, d. 1. september 1975, og eiginkona hans Ólína Hólmfríður Sigvaldadóttir, f. að Heiðarhúsum á Þelamörk 21. nóvember 1897, d. 23. apríl 1983. Bræður Jóns eru Helgi Sigvaldi, f. 25. febrúar 1935, d. 17. október 1955 og Ingi Viðar, f. 21. nóvember 1939. Eiginkona Jóns var Ingibjörg Guðmundsdóttir frá Berghyl í Fljótum, f. 12. febrúar 1929, d. 2. september 2004. Þau gengu í hjónaband 27. ágúst 1953. Foreldrar hennar voru Guðmundur Benediktsson, f. 19. júlí 1893, d. 7. október 1970 og Jóna Kristín Guðmundsdóttir, f. 29. desember 1899, d. 18. desember 2003. Þau voru bæði ættuð frá Minni-Brekku í Fljótum.
 
Jón Árnason fæddist á Syðri–Á, þar ólst hann upp og bjó alla sína tíð. Kona hans var Ingibjörg Guðmundsdóttir. Þau gengu í hjónaband 27. ágúst 1953. Árið 1954 hófu þau búskap á Syðri–Á í félagsbúi á móti foreldrum Jóns en tóku við búsforráðum árið 1970.
 
Ingibjörg var svo vetrarpart í vist á Akureyri en var heima á sumrin, vann að bústörfum með foreldrum sínum en átti líka sjálf kindur og safnaði peningum til að greiða með skólavist í Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði þar sem hún stundaði nám veturinn 1948–1949. Hún vann á sumardvalarheimili fyrir börn á Litlu Tjörnum í Ljósavatnshreppi sumrin 1950 og 1951. Á heimleið um haustið 1951 kom hún með póstbátnum frá Akureyri til Ólafsfjarðar og kynntist þá Jóni Árnasyni frá Syðri–Á sem hafði yfir jeppa að ráða og ók henni yfir Lágheiði inn í Fljót. Þau opinberuðu trúlofun sína árið 1952 og um sumarið var Abba á Berghyl. Hún fluttist svo að Syðri–Á ári seinna og bjó þar eftir það. Mikið var leitað til Öbbu og Jóns um að semja skemmtiefni fyrir félagasamtök í Ólafsfirði. Hún orti fyrir Rotaryklúbbinn, líklega í 16 ár, og tók þar við hlutverki Lárusar Jónssonar þegar hann fluttist frá Ólafsfirði. Þegar hún hætti vinnu gekk hún í Félag eldri borgara, var ritari í þeim félagsskap og sótti landssambandsþing á hans vegum.
 
 
Í bókinni "Byggðin á Kleifum" sem Átthagafélag kleifamanna gaf út 2003 og Friðrik Olgeirsson og Ingi Viðar Árnason tóku saman er eftirfarandi kafli um tónlistarferil Nonna á Syðri-Á.
 
Ólína á Syðri–Á lék á orgel og Jón fór snemma að spila. Hún byrjaði að kenna honum nótur en fljótlega sleppti hann þeim og fór að spila eftir eyranu. Hann eignaðist fyrstu harmonikuna um fermingaraldur og byrjaði að spila fyrir dansi fljótlega eftir það. Þar með hófst ferill sem staðið hefur óslitið síðan. Jón spilaði einna fyrst fyrir dansi með Aðalgeiri Jónssyni og síðar Ingólfi Baldvinssyni. Þeir voru báðir harmonikuleikarar eins og Jón. Fyrsta  hljómsveitin sem hann lék í var tríó sem tók nafn sitt af upphafsstöfunum í nöfnum meðlimanna og var kölluð ÁHJ. Helgi Sigvaldi Árnason lék á gítar og Ásgeir Guðmundsson, ættaður frá Lambanesreykjum í Fljótum, lék á trommur. Sjálfur lék Jón á  harmoniku. Þessi hljómsveit var stofnuð um 1950. Jón spilaði mjög mikið og víða á harmonikuna fyrir dansi en hvergi eins oft og í Holti, gamla skólahúsinu á Kleifum, sem enn í dag er notað til samkomuhalds þegar Kleifamótin vinsælu eru haldin. Þegar hann fór að spila meira í hljómsveitum byrjaði hann að spila jöfnum höndum á harmoniku, píanó og orgel. Um tíma lék hann í hljómsveit með Guðmundi Jóhannssyni sem var píanóleikari. Þeir höfðu með sér trommuleikara og saxófónleikara. Jón spilaði líka lengi með Jóhanni Frey Pálssyni, Einari Jakobssyni og Einari Gestssyni.
Jón sá um undirleik, ásamt Ágústi K. Sigurlaugssyni, við söng í leikritinu Þremur skálkum sem gekk hjá Leikfélagi Ólafsfjarðar í tvo vetur og sýnt var í nágrannabyggðum. Hann hefur leikið undir söng fyrir einsöngvara, ekki síst gamanvísnasöng og kóra. Hann gerði einnig mikið af því að æfa söngflokka, t.d. hjá Slysavarnafélaginu, einkum við undirbúning árshátíða. 
Á síðustu árum hefur Jón stundum spilað með hljómsveit sem nefnd er Þuríður formaður og hásetarnir og nú síðustu mánuði er hann harmonikuleikari í hljómsveitinni Kleifabandalagið sem hefur m.a. komið fram í Hlaðvarpanum í Reykjavík og félagsheimilinu á Hofsósi. 
Eftir að Jón hætti að mestu að spila með danshljómsveitum hóf hann að leika með Félagi Harmonikuunnenda við Eyjafjörð. Þau hjónin hafa sótt öll landsmót harmonikuunnenda nema það fyrsta. Á þessum mótum hafa þau kynnst fjölda fólks víða um land. Þá hefur Jón samið mörg falleg lög og árið 1984 kom út hljómplatan Kleifaball með honum þar sem hann spilaði harmonikulög, m.a. eigin lög með aðstoð hljóðfæraleikara frá Akureyri.