logo

Ëlafur ١r­arson

Ólafur Tryggvi Þórðarson 

 

1949 - 2011

 

Ólafur Þórðarson var einn af stofnendum og lykilmaður í South River Band allt frá upphafi síðsumars 2000. Það voru haldnar vikulegar æfingar í South River Band - oftast á heimili Óla í Þingholtunum. Við sameinuðumst í ástríðu okkar til tónlistarinnar en það var eitthvað meira sem batt okkur saman. Það var félagsskapurinn, stemningin, vináttan. Þessir vikulegu fundir okkar voru alveg ómissandi, að spjalla saman - hlæja, búa til skemmtilega tónlist í tónum og textum og spila hana - okkur sjálfum til ánægju. Við kölluðum hann Maestro okkar í milli. Hann var prímus mótor í okkar samstarfi og samspili. Þegar Maestro var í stuði voru okkur allir vegir færir. Hann var feiknarlega skemmtilegur rytmagítarleikari og það var engin þörf á slagverki þegar Maestro var á gítarnum. Hann samdi líka falleg lög og var fjarskalega óeigingjarn og hvetjandi í samstarfi og alltaf svo gjafmildur á góð ráð og stuðning.

Við söknum Maestro Ólafs Þórðarsonar sárt en við ætlum að halda merki hans á lofti með þeim hætti sem honum hefði best líkað, með því að halda áfram að hittast og gleðjast saman í að búa til og flytja skemmtilega tónlist.

 

Úr minningargrein í Morgunblaðinu þriðjudaginn 13. desember 2011

Ólafur Tryggvi Þórðarson tónlistarmaður var fæddur í Glerárþorpi, Akureyri, 16. ágúst 1949. Hann lést á Grensásdeild Landspítalans 4. desember 2011. 

Ævistarf sitt helgaði Ólafur tónlistinni. Hann var menntaður tónlistarkennari og kenndi á árum áður tónlist í Kópavogi en þekktastur er hann fyrir að leika með Ríó tríóinu í meira en 40 ár. Hann lék einnig með fleiri hljómsveitum svo sem Kuran Swing og South River Band. Með þessum hljómsveitum lék hann inn á tugi hljómplatna og þá gerði hann einnig tvær plötur í eigin nafni.

Ólafur var mikill djassunnandi, hann var frumkvöðull að stofnun þess sem nú er Djasshátíð Reykjavíkur og átti þátt í stofnun Léttsveitar Ríkisútvarpsins. Hann stofnaði og rak Þúsund þjalir - umboðsskrifstofu listamanna um árabil en vann einnig sem blaðamaður, ljósmyndari og útlitsteiknari. Síðast en ekki síst var Ólafur þjóðkunnur útvarpsmaður en á Ríkisútvarpinu stýrði hann  tónlistarþáttum um árabil.

 
Svona skrifaði Ólafur um sjálfan sig á vefsíðu South River Band 2006
 
Eitt það erfiðasta sem maður lendir í er að segja frá eða skrifa um sjálfan sig. Það er eins og maður sé að skrifa minningagrein eða atvinnuumsókn. Ég er fæddur á Grund í Glerárþorpi (Glæsibæjarhreppi), en ólst upp í Garðshorni, gömlum torfbæ við hlið Kvennfélagsgarðsins í Glerárþorpi. Svo liðu árin. Ég fluttist suður til Reykjavíkur og gekk í gamla Hlíðaskólann við Eskihlíð og varð vitni að byggingu LÍDÓ, núverandi höfuðstöðvar fjölmiðlaveldis. Eftir ársdvöl í Skaftahlíðinni, hófst Kópavogstímabilið. Loksins þar lét ég verða að því að reyna að spila á eitthvað hljóðfæri. "Luftgítar" hefur fylgt mér frá því ég man eftir mér. Systir mín kenndi mér fyrsta gripið á gítar... svo liðu árin.. 
 
Ég lauk gagnfræðiprófi frá Víghólaskóla í Kópavogi og hélt þaðan í Handíða- og myndlistaskóla Íslands í tvö ár. Fór í Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan tónlistarkennaranámi 1974. Stundaði tónlistarkennslu frá 1974 - 82 & 1992 - 93. Var dagskrárgerðarmaður og framleiðslustjóri í tónlistardeild RÚV, rás 1 & 2 1982 - 90. Dagskrárstjóri á Aðalstöðinni 1990 -92. Blaðamaður, ljósmyndari og við umbrot & hönnun, á Vikublaðinu / Helgarpóstinum 1992 -97. Hef leikið með ýmsum hljómsveitum frá 1962, t.d. Rokkarnir, Ríó Tríó, Kuran Swing, Maðurinn sem aldrei sefur, South River Band, HonyNut og fleiri. Hef einnig starfað sem upptökustjóri og hef átt þátt í gerð fjölda hljómplatna í gegnum árin og  unnið við gerð fjölda sjónvarpsþátta af ýmsu tagi.