logo

Sagan

Á föstudagskveldi og -nótt um verslunarmannahelgina árið 2000 áttu nokkrir sveitungar og frændur skemmtilega stund saman í stofunni að Syðri-Á á Kleifum í Ólafsfirði. Kleifamót var hafið, nokkurskonar ættar- og sveitungamót sem kleifamenn halda á þriggja ára fresti, og nú skyldi æft söng- og dansprógramm fyrir ball mótsins. Liðin eru tíu ár frá þessari örlagaríku stund á Syðri-Á þegar hljómsveitin South River Band varð til. Hún hefur starfað alla tíð síðan, selt yfir 10.000 eintök af hljómdiskum sínum sem eru fimm talsins. Ýmsar umsagnir hefur sveitin fengið. “Þeir eru angurværir og gamaldags” sagði tónleikagestur á fyrstu árunum. “Sígaunar norðursins” stóð í umfjöllun um hljómsveitna í blaðagrein fyrir nokkrum árum. 
 
Það má raunar segja að hljómsveitin hafi lengi verið til í ýmsum myndum. Á Kleifum í Ólafsfirði hefur alltaf verið mikið um söng ekki síst á Syðri-Á. Myndin sýnir nokkra bæi á Kleifum og bærinn vinstra megin með rauðu þaki er Syðri-Á. Myndin er tekin á Kleifamótinu árið 2000. Í stofunni á Syðri-Á það ár hittust fyrir nokkrir frændur og sveitungar af Kleifum. Þetta voru þeir Jón Árnason bóndi og harmonikuleikari og miðpunktur tónlistarlífs í Ólafsfirði um árabil, Ólafur Þórðarson, Kormákur Bragason og Helgi Þór Ingason. Allir tengjast þeir Syðri Á en fimmti maðurinn í hópnum, Ólafur Baldvin Sigurðsson, er úr Árgerði - næsta bæ.  Söngbók var dregin fram og spilað og sungið heila nótt. Síðan hefur söngurinn ekki þagnað enda var almennur söngur hin eiginlega undirstaða samstarfsins í upphafi. 
 
 
Þeir félagar ákváðu að halda áfram samstarfi sínu eftir að Kleifamótinu lauk síðsumars 2000. Þeir tóku upp vikulegar æfingar þar sem unnið var með tónlist sem verið hafði í uppáhaldi á Syðri-Á. Fljótlega var Grétar Ingi Grétarsson fengin til liðs við hljómsveitina til að spila á kontrabassa. Öll áhersla var lögð á að geta spilað undir söng. Gengist var fyrir söngkvöldum þar sem textum laganna var varpað upp á vegg með skjávarpa, þannig að allir gætu tekið þátt og sungið með. Nokkur slík söngkvöld voru haldin í Kaffileikhúsinu í Reykjavík og stundum voru fengnir góðir gestir til að leika með hljómsveitinni. Söngkvöldin mæltust vel fyrir og oft á tíðum myndaðist frábær stemning í salnum. Myndin hér fyrir neðan var tekin af bandinu á Söngkvöldi í Kaffileikhúsinu 2003 og með sveitinni lék góður gestur á fiðlu, Szymon Kuran.
 Frá vinstri: Helgi Þór Ingason, Ólafur Baldvin Sigurðsson, Szymon Kuran, Kormákur Bragason, Ólafur Þórðarson, Jón Árnason, Gunnar Reynir Þorsteinsson og Grétar Ingi Grétarsson.
 
Fyrsta hljómplata sveitarinnar kom út vorið 2002, bar sama heiti og hljómsveitin og innihélt 14 lög, flest frumsamin við frumsamda texta. Þessi hljómplata er einstök fyrir þá sök að Jón Árnason á Syðri-Á lék á harmoniku og söng tvö lög, en hann lést tveimur árum eftir útgáfu hennar. Tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins sagði meðal annars um þennan fyrsta hljómdisk South River Band: 
“Látlaus spilagleðin er helsti styrkleikur þessa hljómdisks og það er vissulega eitthvað heillandi við það að hlýða á heilan frændgarð leika saman af hjartans lyst – tengda saman ekki bara af ást til tónlistarinnar heldur og í gegnum blóðið.” 
 
Vissulega hefur látlaus spilagleðin alltaf einkennt samstarfið í South River Band. Á árinu 2003 bættist öflugur liðsmaður í hópinn þegar Matthías Stefánsson fiðlari og gítarleikari gekk til liðs við hljómsveitina. Matthías setti frá upphafi mark sitt á hljómsveitina. Hann er eini atvinnumaðurinn í tónlist í hópnum og færni hans sem tónlistarmanns, metnaður og tónlistarleg næmni hafa alla tíð verið einn helsti áhrifaþátturinn í þróun South River Band. Fljótlega var tekin upp sú stefna að spila á órafmögnuð hljóðfæri. Ólafur Sigurðsson lagði rafgítarnum og hóf að leika á mandólín. Helgi Þór Ingason pakkaði niður rafmagnspíanóinu og keypti sér harmoniku. Vorið 2004 kom annar hljómdiskur sveitarinnar út og hann bar það merkilega heiti “Maður gæti beðið um betra veður”. Á henni var sleginn nýr tónn því lögin á henni má flokka sem heimshornatónlist. Um helmingur þeirra var frumsaminn en allir textar voru frumsamdir. Tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins sagði meðal annars í umsögn um diskinn: 
“Á þessari nýju plötu, annarri plötu sveitarinnar, sem kom út í sumar, er spilagleðin enn við völd, enda er hún skipuð fantafínum spilurum sem klárlega hafa unun og yndi af því að spila saman og syngja alþýðutónlist, hvaðanæva úr heiminum.”
 
Áfram var haldið á þeirri braut að spila heimshornatónlist. Sem hljóðfæraleikurum óx mönnum ásmegin því hvergi var slegið af við æfingar og oft var hljómsveitin fengin til að koma fram sem skemmtiatriði. Veturinn 2004-2005 var Grétar Ingi bassaleikari í námsleyfi í Þýskalandi og Einar Sigurðsson hljóp í skarðið. Einar starfar sem hljóðmaður hjá RUV og hann átti frumkvæði að því að hljómsveitin fékk hið frábæra Stúdíó 12 lánað vorið 2005 og tók upp þriðja hljómdisk sinn. Að þessu sinni var enginn söngur, einvörðungu spiluð lög og flest þeirra þjóðlög frá ýmsum löndum. Hljómdiskurinn Bacalao varð afrakstur þessarar vinnu. Hann inniheldur 13 lög sem tekin voru upp á einungis 3 klukkustundum í Stúdíó 12. Hér var tekið upp á gamla mátann, hljóðnemum var komið fyrir við öll hljóðfæri og svo var talið í og lögin spiluð eins og um tónleika væri að ræða. Útkoman var ótrúlega góð og endurspeglaði lifandi og sannan hljóm sveitarinnar. Tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins sagði m.a. um þennan hljómdisk: 
“Á Bacalao hafa þeir félagar frá Syðri-Á safnað saman lögum frá Úkraínu, Írlandi, Bandaríkjunum, Finnlandi, Spáni og Svíþjóð. Lagavalið er gott, skemmtileg blanda af gamalli og nýlegri tónlist sem þeir matreiða geysivel með lifandi og líflegri spilamennsku og sýna fram á að kjarninn í þjóðlegri tónlist er sá sami þó tungumálið sé ólíkt eða hljóðfæraskipanin - gott lag er alltaf sama góða lagið í hvaða búningi sem það annars er.” 
Sumarið 2005 spilaði sveitin á Þjóðlagahátíð á Siglufirði og myndin hér fyrir neðan var tekin við það tækifæri.
Frá vinstri: Ólafur Þórðarson, Ólafur Baldvin Sigurðsson, Einar Sigurðsson, Matthías Stefánsson,  Kormákur Bragason og Helgi Þór Ingason.
 
South River Band mætti kannski líkja við saumaklúbb því hljómsveitin hittist vikulega á æfingum og að auki er töluvert um tónleikahald og spilamennskur á árshátíðum, afmælum og við margskonar tilefni hjá einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum. Samlíkingin við saumaklúbb er þó ekki sérlega góð því á hinum vikulegu æfingum er lítið spjallað heldur er hver mínúta nýtt til spilamennsku og tónlistarsköpunar. Með tíð og tíma hafa menn vaxið og þroskast sem hljóðfæraleikarar og einnig hefur þeim farið fram við laga- og textasmíðar. Afrakstur þessa þróunarstarfs leit dagsins ljós haustið 2007 þegar fjórði hljómdiskurinn, Allar stúlkurnar, kom út. Hann innihélt 14 lög, frumsamin og erlend þjóðlög. Textarnir eru frumsamdir og fjalla um spaugilegar hliðar tilverunnar og dauðans alvöru, grín og glens, sorg og sút, og allt þar á milli. Hljómdiskurinn Allar stúlkurnar fékk fjórar stjörnur hja tónlistargagnrýnanda Morgunblaðsins sem sagði meðal annars um diskinn:
"Meðlimir South River Band eru allir stjörnur þessarar plötu, lagasmíðar þeirra eru afskaplega góðar auk þess sem þeir hafa gott nef fyrir tökulögum. Það er þó hljóðfæraleikur þeirra sem skarar fram úr, hvergi er feilnóta slegin og er flutningurinn fullur af sál, frá fyrsta lagi til hins síðasta."
Myndin var tekin á góðri stundu í Iðnó í febrúar 2007 en þá var undirbúningur fyrir Allar stúlkurnar kominn í gang.
 Frá vinstri: Grétar Ingi Grétarsson, Matthías Stefánsson, Ólafur Baldvin Sigurðsson, Ólafur Þórðarson, Helgi Þór Ingason og Kormákur Bragason.
 
 Sumarið 2009 fór hljómsveitin í sína fyrstu utanlandsferð. Þá var haldið til Álandseyja á þjóðlagahátíð sem fram fer árlega á lítilli eyju sem heitir Kumlinge. Með í för var Guðrún Gunnarsdóttir söngkona. Ferðin var ævintýraleg fyrir margra hluta sakir, ekki síst vegna þess að til að komast á þessa pínulitlu eyju þurfti að fljúga, aka og sigla. Ferðalagið tók hartnær sólarhring en konsertinn tók 45 mínútur. Svo tók heimferðin við og aftur var ekið, siglt og flogið.
 
Frá vinstri: Ólafur Baldvin Sigurðsson, Matthías Stefánsson, Grétar Ingi Grétarsson, Guðrún Gunnarsdóttir, Ólafur Þórðarson og Helgi Þór Ingason. Hundurinn Skotta situr - hún fór ekki með til Kumlinge. 
 
Haustið 2010 fékk Grétar Ingi Grétarsson aftur leyfi frá South River Band til að taka að sér starf forstjóra einkaleyfastofnunar í Kaupmannahöfn. Við kontrabassaleik tók Jón Kjartan Ingólfsson, reyndur bassaleikari og söngvari og hann var ekki lengi að ná tökum á efnisskránni. Fyrstu tónleikarnir með Jón Kjartan innanborðs voru á Kaffi Rósenberg 17. febrúar 2010.
 
Sumarið 2010 var mikið í gangi því auk þess að taka upp jólaplötu var farið í mikla tónleikaferð á norðurland í ágúst. Tónleikar voru haldnir á Akureyri, Dalvík og Húsavík og m.a. komið fram á Fiskideginum mikla á Akureyri. South River Band hefur ekki fyrr spilað fyrir annan eins mannfjölda.
 
Á Dalvík kom fram með sveitinni söngkonan og fiðluleikarinn Unnur Birna Björnsdóttir sem hefur stundum hlaupið í skarðið fyrir Matthías Stefánsson á fiðluna.
 
 
Hljómsveitin hefur árum saman haft á stefnuskránni að gefa út jólaplötu með frumsömdu efni, í bland við þekkt jólalög í uppáhaldi hjá hljómsveitarmeðlimum. Vorið 2010 var ákveðið að ráðast í þetta verkefni og sumarið 2010 stóð því yfir smíði jólalaga og jólatexta. Upptökur fóru fram um sumarið og haustið og platan kom út í byrjun desember. Hún fékk góðar viðtökur en hún kom út í skugga gríðarlegs áfalls því í nóvember 2010 var ráðist á Ólaf Þórðarson á heimili hans í Þingholtunum. Ólafur fannst meðvitundarlaus skömmu eftir árásina.
 
Myndin var tekin í byrjun nóvember 2010 en þá var Ólafur Þórðarson að ljúka við hönnun á plötuumslagi nýju jólaplötunnar og við fengum Birgi Ísleif ljósmyndara til að taka af okkur nokkrar myndir.
 
Frá vinstri: Ólafur Þórðarson, Helgi Þór Ingason, Matthías Stefánsson, Ólfur Baldvin Sigurðsson og Jón Kjartan Ingólfsson. 
 
Til að halda merki Ólafs og South River Band á lofti var leitað samstarfs við gítarleikara og söngvara sem gæti fyllt skarð hans. Ekki þurfti að leita langt því vinnufélagi Ólafs á RUV er Guðmundur Benediktsson, þjóðþekktur tónlistarmaður. Hann gekk til liðs við South River Band í febrúar 2011 og var fljótur að ná tökum á efnissskránni. Fyrstu alvöru tónleikarnir með Guðmund innanborðs voru haldnir 1. júní 2011 á Kaffi Rósenberg og gengu þeir stórvel.
 
Þann 4. desember 2011 andaðist Ólafur Þórðarson á Grensásdeild Landspítalans en hann komst aldrei til meðvitundar. Ólafs Þórðarsonar er sárt saknað en hljómsveitin ætlar að halda merki hans á lofti með þeim hætti sem honum hefði best líkað, með því að halda áfram að hittast og gleðjast saman í að búa til og flytja skemmtilega tónlist.
 
Samstarfið í South River Band hefur varað lengi og drifkraftur þess er mikil tónlistarleg ástríða, áhugi, metnaður og traustur vinskapur. Löng er orðin leiðin frá því þeir stögluðust við gamla slagara í stofunni á Syðri-Á sumarið 2000 – til nýrri hljómdiskanna sem fá góða dóma fyrir spilamennsku. Æfingar þeirra á miðvikudagskvöldum í heimahúsum á höfuðborgarsvæðinu hafa haldið áfram og svo mun verða enn um sinn því allir drifkraftar samstarfsins eru enn til staðar. Áfram mun því ómur af finnskum polkum, sænskum hambóum og ungverskum sígaunalögum heyrast frá heimilum þeirra á miðvikudagskvöldum. 
 
Hljómsveitina skipa nú þeir Ólafur Baldvin Sigurðsson (mandolín), Guðmundur Benediktsson (gítar), Jón Kjartan Ingólfsson (kontrabassi), Matthías Stefánsson (fiðla og gítar) og Helgi Þór Ingason (harmonika). Allir leggja þeir sitt af mörkum í söng.