logo

Tˇnlistin ß Kleifum

Það má segja að hljómsveitin hafi lengi verið til í ýmsum myndum. Á Kleifum í Ólafsfirði hefur alltaf verið mikið um söng, ekki síst á Syðri-Á. Ungir sem aldnir stunduðu samsöng og samspil. Í fámenninnu var þetta einhver vinsælasta dægrardvölin ásamt kveðskap og bókalestri. Ólína móðir Jóns Árnasonar harmonikuleikara eignaðist fótstigið orgel sem hún lærði á og allar voru þær Syðriársystur söngelskar mjög, ekki síst Helga Sigvalda (móðir Ólafs og Kormáks) sem einnig kunni svolítið á gítar.
 
Börn þeirra systra tóku síðan við og fyrir utan Nonna sem snemma lærði að spila á harmóniku létu þær Búðarhólssystur Sigríður og Hulda Steingríms talsvert að sér kveða endu kunnu þær öll lög og texta og Sigga spilaði auk þess á gítar. Helgi Árnason (bróðir Nonna), söng og spilaði, svo og Ingi Viðar yngsti bróðirinn, sem í mörg ár hefur tekið þátt í kórastarfi hér fyrir sunnan. Binna frænka, Dollý frænka og yfirleitt öll ættin og nágrannar sungu og spiluðu sér til ánægju. Stundum var er sagt í gríni að þegar Syðrármenn komi saman sé bara sungið enda þekki þeir ekki hver annan öðruvísi.
 
 
 
Á myndinni sést Slaufukvartettinn á Kleifum. F.v. Hulda Steingrímsdóttir, Sigríður Steingrímsdóttir, frá Búðarhól og Helgi Árnason frá Syðri-Á. Því miður þekkjum við ekki stúlkuna fyrir aftan. Vonandi getur einhver hjálpað okkur með nafnið.
 
Kleifamót voru tekin upp á síðustu öld og á einu slíku reyndar í byrjun þessarar aldar varð South River Band til. Í Ömmustofu á Syðri-Á árið 2000 hittust fyrir frændurnir, þeir Jón Árnason, Helgi Þór Ingason, Ólafur Þórðarson og Kormákur Bragason (allt Syðriármenn) ásamt Ólafi Sigurðssyni frá Árgerði, sem stendur örfáum metrum norðan við Syðri -Á. Söngbók var dregin fram og spilað og sungið heila nótt. Síðan hefur söngurinn ekki þagnað enda var almennur söngur hin eiginlega undirstaða South River Band í upphafi. Alltaf þegar komið var saman á Syðri-Á var farið að syngja. Þeir sem gátu spilað undir eða með lögðu sitt af mörkum. Var Jón þar fremstur með harmonikuna og píanóið. Þeir yngri vildu líka láta ljós sitt skína og alltaf voru einhverjir sem lögðust á árar með Jóni. En löngu áður en Presley og Bitlarnir komu til sögunnar var raddaður söngur í hávegum hafður.